Á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku ákvað meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að hækka gjaldskrá vegna skólamáltíða um 33% og um 19% á leikskólum. Jafnaðarfólk í bæjarstjórn mótmælti þessari ákvörðun harðlega og greiddi atkvæði gegn tillögunni. Ákvörðun fulltrúa Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks bitnar verst á þeim fjölskyldum sem höllustum fæti standa auk þess sem meirihlutinn var einfaldlega búinn að gleyma sínum eigin málefnasamningi þar sem skýrt er kveðið á um að stigin verði markviss skref í átt að gjaldfrjálsum skólamáltíðum á kjörtímabilinu. Þegar til skjalanna kom þá voru þau orð bara upp á punt – því miður.
Hækkunin leiði til ójafnræðis á milli barna
Á fundi fræðsluráðs í gær mótmælti svo Foreldraráð Hafnarfjarðar ákvörðun bæjarstjórnar harðlega. Foreldraráðið fordæmir hækkunina enda sé hún vel umfram verðlagsþróun. Einnig lýsir ráðið yfir verulegum áhyggjum af því að hækkunin komi til með að ýta ójafnræði á milli barna og telur að hækkunin sé á skjön við Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna sem og lög um farsæld barna enda muni hækkunin leiða til þess að sumar fjölskyldur hafi ekki lengur tök á því að nýta sér þessa mikilvægu þjónustu. Foreldraráð Hafnarfjarðar fer fram á það ákvörðunin verði endurskoðuð svo koma megi í veg fyrir að þessi aukaútgjöld lendi á fjölskyldum skólabarna.
Er meirihlutinn tilbúinn að hlusta – og fylgja sínum eigin málefnasamningi?
Nú reynir á hvort meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks er tilbúinn að hlusta á raddir foreldra skólabarna og sé tilbúinn að framfylgja sínum eigin málefnasamningi – og taka markviss skref í átt að gjaldfrjálsum skólamáltíðum?