Hafnarfjarðarhöfn

Hver er maðurinn?

Ég heiti Árni Rúnar Þorvaldsson og er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Einnig er ég fulltrúi flokksins í Fjölskylduráði.

Ég tók þátt í flokksvali Samfylkingairnnar sem fram fór 12. febrúar 2022 og endaði í þar í 3. sæti. Ég skipaði því 3. sætið á lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði í sveitarstjórnarkosningum sem fram fóru 14. maí 2022.

Ég er fæddur árið 1976 og er því 46 ára. Foreldrar mínir eru Guðný Árnadóttir, frönskukennari í Flensborg og Þorvaldur Jón Viktorsson, fyrrum skólastjóri. Fyrir utan tvö ár sem ég bjó í London ólst ég upp í Hafnarfirði og gekk í Lækjarskóla. Þegar skólagöngunni lauk í Lækjarskóla lá leiðin beinustu leið upp á Hamarinn í Flensborg og þaðan útskrifaðist ég vorið 1997. Árið 2005 lauk ég prófi frá Kennaraháskóla Íslands og í dag er ég grunnskólakennari og starfa sem slíkur í Smáraskóla í Kópavogi.

Ég er kvæntur Ragnhildi Einarsdóttur deildarstjóra í Lækjarskóla. Við eigum þrjú börn: Guðnýju Árnadóttur, sem spilar fótbolta með AC Milan á Ítalíu, Einar Karl Árnason, sem spilar fótbolta með Sindra á Hornafirði og Sólborgu Árnadóttur sem er í 4. bekk í Öldutúnsskóla og spilar fótbolta með 6. flokki FH. Guðný og Einar Karl eru bæði stúdentar frá Flensborg.

Um aldamótin fluttum við hjónin til Hornafjarðar þar sem við bjuggum í ein 13 ár. Þaðan fluttum við svo með fjölskylduna í Vík í Mýrdal vorið 2013 þar sem konan mín starfaði sem skólastjóri Víkurskóla í tvö ár. Vorið 2015 fluttum við aftur í Hafnarfjörðinn þar sem við unum hag okkar afar vel.

Fjölbreytt reynsla

Ég var kjörinn fyrir hönd Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar árið 2006 og var bæjarfulltrúi þar í rúm sjö ár. Á þeim tíma gegndi ég embættum forseta bæjarstjórnar og formanns bæjarráðs, auk þessa að sitja í fjölda annarra nefnda og ráða á vegum sveitarfélagsins. Undanfarin ár hef ég setið í fjölskylduráði fyrir hönd Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og verið varabæjarfulltrúi á því kjörtímabili sem nú er að ljúka. Ég hef því mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum og stjórnmálastarfi.

Ég hef einnig komið mikið að félagsmálum t.d. innan íþróttahreyfingarinnar og stéttarfélags kennara. Undanfarin ár hef ég verið virkur í starfi meistaraflokks kvenna hjá FH í fótbolta þar sem ég hef verið formaður meistaraflokksráðs kvenna frá 2015. Áður var ég einnig til fjölda ára formaður knattspyrnudeildar Sindra á Hornafirði. Einnig hef ég verið í virkur í starfi stéttarfélags grunnskólakennara og sat um tíma í stjórn Félags grunnskólakennara.

Stoltur Hafnfirðingur

Þó ég hafi búið um nokkuð langan tíma utan Hafnarfjarðar þá hef ég alla tíð litið á mig sem mikinn Hafnfirðing. Hér liggja rætur mínar og hér sleit ég barnsskónum. Hér eru líka vinirnir frá fornu fari og stærstur hluti fjölskyldu minnar. Hér bjuggu afar mínir og ömmur, annars vegar Árni Bárður Guðmundsson og Ágústa Haraldsdóttir og hins vegar Viktor Þorvaldsson og Guðrún Ingvarsdóttir.

Árni Rúnar Þorvaldsson
Árni Rúnar Þorvaldsson.

Pin It on Pinterest