Um síðustu helgi fór fram vel heppnað flokksval Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Þar buðu 12 mjög hæfir einstaklingar sig fram til þess að taka sæti á lista flokksins í næstu bæjarstjórnarkosningum. Kosningin var bindandi í 6 efstu sætin. Einhverjir náðu sínum markmiðum en aðrir ekki eins og gengur og gerist. Ég óska þeim frambjóðendum sem náðu kjöri innilega til hamingju. Öðrum frambjóðendum óska ég líka til hamingju með sinn árangur og ég þakka öllum frambjóðendum fyrir heiðarlega, kröftuga og skemmtilega kosningabaráttu. Niðurstaðan er öflugur og sigurstranglegur listi enda var úrval frambjóðenda afar glæsilegt.
Afgerandi stuðningur í 1. – 3. sætið
Þátttakan í flokksvalinu var mjög góð en tæplega 1000 flokksfélagar og skráðir stuðningsaðilar tóku þátt og greiddu atkvæði. Ástæða er til þess að þakka þessu fólki fyrir að hafa haft fyrir því að taka þátt og styðja við þá frambjóðendur sem buðu fram krafta sína. Og sjálfur vil ég ekki síst þakka því fólki sem tók þátt og studdi við bakið á mér í flokksvalinu. Mikill og afgerandi stuðningur við mig í 1. – 3. sætið þýðir að ég mun skipa 3. sætið á lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði í bæjarstjórnarkosningunum í vor. Ég er afar þakklátur fyrir þennan mikla stuðning og hlakka til þeirrar vinnu sem framundan er í kosningabaráttunni.
Samfylkingin gengur bjarstýn til kosninga
Flokksvalið skilaði okkur afar öflugum og sigurstranglegum lista sem ég er sannfærður um að muni sækja fram til sigurs í vor. Og ég mun leggja allt í sölurnar sjálfur til að svo verði. Nú hefst undirbúningur kosningabaráttunnar í vor. Samfylkingin mun mæta vel nestuð til þeirrar baráttu, með sigurstranglegan lista og með okkar klassísku jafnaðarstefnu í farteskinu. Við erum tilbúin í baráttuna og munum mæta bæjarbúum með bros á vör í kosningabaráttunni og við erum svo sannarlega vongóð um góða niðurstöðu í kosningunum 14. maí næstkomandi.