Jafnaðarmenn unnu glæsilegan sigur í bæjarstjórnarkosningum um síðustu helgi. Við bættum við okkur tveimur bæjarfulltrúum og fórum úr 20% í 29%. Glæsilegur sigur.
Framsóknarflokkurinn vann einnig góðan sigur og bættu við sig einum bæjarfulltrúa og eru nú með rúmlega 13% fylgi í bænum. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði hins vegar talsverðu fylgi og tapaði manni. Útkoma Sjálfstæðisflokksins í þessum kosningum er sú versta í Hafnarfirði frá upphafi ef frá eru taldar kosningarnar 2006. Viðreisn hélt sínum manni í bæjarstjórn en aðrir flokkar komu ekki að fulltrúa. Næstir því að ná fulltrúa í bæjarstjórn voru Píratar með 6,1% fylgi. Í þessum kosningum féllu rúmlega 2.200 atkvæði dauð eða rúmlega 17%. Það er umhugsunarefni.
Félagshyggjumeirihluti?
Kosningaúrslitin gefa því tilefni til að kannaður verði möguleikinn á félagshyggjumeirihluta Samfylkingar og Framsóknarflokks. Sigurvegarar kosninganna eiga að tala saman. Það eru skilaboð kjósenda í Hafnarfirði. Hafnarfjörður þarf á félagshyggjumeirihluta að halda núna. Við jafnaðarmenn erum tilbúnir í það verkefni og þau verkefni sem framundan eru.