Ég vil bæ sem tryggir lýðræðislega aðkomu bæjarbúa að allri ákvarðanatöku. Ég vil bæ þar sem velferð og jöfnuður eru leiðarljósin við stjórnun bæjarfélagsins þar sem öllum börnum og unglingum eru tryggð jöfn tækifæri til náms og tómstunda. Sem jafnaðarmaður tel ég það eitt mikilvægasta verkefni bæjarstjórnar að jafna byrðarnar í samfélaginu og leitast við að létta álögur á barnafjölskyldum og tekjulægri hópum samfélagsins. Og ég vil bæjarfélag sem fléttar jafnréttismálum inn í alla sína ákvarðanatöku.
Verkefni sveitarfélaganna er mörg og fjölbreytileg. Hjá þeim er stór hluti nærþjónustunnar og velferðarþjónustunnar. Þess vegna skiptir miklu máli að þau sem halda utan um rekstur sveitarfélags séu meðvituð um að þau eru þjónar bæjarbúar og leitist við að tryggja almannahag í allri sinni vinnu og ákvörðunartöku bæjarstjórnar. Ég er tilbúinn til þess að vinna að hag bæjarbúa með þessi gildi í farteskinu og leiða Samfylkinguna til sigurs í bæjarstjórnarkosningum þann 14. maí næstkomandi.
Jöfnum byrðarnar í samfélaginu.
Ég vil:
- virkt samráð við íbúa og íbúalýðræði,
- styðja við börn og foreldra með því að lækka álögur á barnafjölskyldur og tekjulægri hópa samfélagsins,
- að öll börn og unglingar geti stundað frístundastarf óháð efnahag,
- öfluga félagslega heimaþjónustu sem styður aldraða til búsetu í eigin húsnæði,
- útrýma biðlistum hjá fötluðu fólki eftir húsnæði við hæfi með því að tryggja nægt framboð af fjölbreyttu búsetuformi eins og nýja íbúðakjarna og sjálfstæða búsetu með stuðningi,
- tryggja nægt framboð af hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur,
- berjast fyrir fjölgun sálfræðinga í skólum og heilsugæslu,
- efla þjónustu við nýja Íslendinga og hjálpa þeim fjölskyldum sem hafa nú þegar sest að í bænum að aðlagast samfélaginu sem best,
- að Hafnarfjörður móti þá stefnu að enginn búi við fátækt í bænum og styðji við þá stefnu með raunverulegum aðgerðum,
- tryggja gott og faglegt umhverfi sem laðar að gott starfsfólk í leik- og grunnskólum, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar,
- halda gjaldtöku í skólakerfinu í algjöru lágmarki og taka skref í átt að gjaldfrjálsum leik- og grunnskóla,
- standa vörð um bæjarstæðið og efla miðbæinn,
- efla almenningssamgöngur með Borgarlínu og öflugu innanbæjarkerfi strætó.