Fjárhagsáhyggjur

Álögur hækka hjá þeim sem síst skyldi

Í fjölskylduráði birtast áherslur meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra með skýrum hætti við gerð fjárhagsáætlunar. Þær felast í því að leggja auknar byrðar á viðkvæmustu hópa samfélagsins, þ.e. aldraða, öryrkja og tekjulága. Meirihlutinn stuðlar því að ójöfnuði og vegur að lífskjarasamningunum.

„Leiðréttingar“ meirihlutans

Gjaldskrá vegna heimaþjónustu fyrir aldraða og öryrkja hækkar um 24,5% og akstur fyrir aldraða hækkar um rúmlega 100%. Þannig vill meirihlutinn ná í auknar tekjur úr vösum aldraðra og öryrkja upp á tæpar 6 milljónir og kallar hækkanirnar leiðréttingar eins og gjaldskráin hafi verið röng þegar álögurnar voru lægri. Meirihlutinn gefur lífskjarasamningunum langt nef því Samband íslenskra sveitarfélaga beindi þeim tilmælum til sveitarfélaganna að þau hækki ekki gjaldskrár umfram 2,5% á næsta ári til að styðja við samningana.

Leiga félagslegra íbúða hækkar um 21%

Meirihlutinn hyggst einnig sækja auknar tekjur í vasa tekjulágra einstaklinga í félagslega íbúðakerfinu en meirihluti umhverfis- og framkvæmdaráðs hefur ákveðið að hækka leiguna um 21%. Enn liggja ekki fyrir nógu góðar upplýsingar um það hvaða áhrif þessi ákvörðun mun hafa á leigjendur því einhverjir þeirra munu eiga rétt á sérstökum húsaleigubótum sem munu vega á móti hækkuninni en það er ljóst að hækkunin verður íþyngjandi fyrir stóran hóp leigjenda.

Tekjuhærri í skjóli

Á sama tíma og álögur eru auknar á hópa í viðkvæmri stöðu þá leggur meirihlutinn áherslu á að verja tekjuhæstu hópana með því að fullnýta ekki útsvarið. Samkvæmt upplýsingum sem undirritaður fékk við gerð síðustu fjárhagsáætlunar þá kom fram að fullnýtt útsvar á þessu ári hefði aukið tekjur bæjarsjóðs um tæpar 55 milljónir og fjölskyldusviðs um 10 milljónir. Aldraðir, öryrkjar og tekjulágir súpa nú seyðið af þessari forgangsröðun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra.

Verjum lífskjörin

Samfylkingin stendur vörð um kjarasamninga og jöfnuð. Tillögur meirihlutans um gjaldskrárhækkanir ganga í þveröfuga átt. Þær munu, nái þær fram að ganga, rýra lífsgæði þeirra sem höllustum fæti standa og vega að markmiðum lífskjarasamninganna. Jöfnuður og öflug velferðarþjónusta er grundvöllur réttláts samfélags og því mun Samfylkingin halda áfram að berjast gegn þessum áformum meirihlutans.

Greinin birtist í Fjarðarfréttum 10.12.2019

Pin It on Pinterest