Eldsumbrot og Hafnarfjörður 

Á undanförnum vikum og mánuðum höfum við öll fylgst með skelfilegum afleiðingum eldsumbrota nærri Grindavík á byggð og íbúa þar. Hugur landsmanna er hjá Grindvíkingum enda hafa þeir búið við mjög erfiðar aðstæður og mikla óvissu. Við stöndum öll með þeim og vonumst til að lausnir á aðstæðum þeirra líti dagsins ljós sem allra fyrst og óvissu ljúki. 

Atburðirnir við Grindavík hafa vakið upp umræður um hættur annars staðar vegna eldsumbrota. Bent er á að umbrotin geti færst yfir til annarra gossvæða og þar hefur meðal annars verið rætt um gömul gossvæði ofan Hafnarfjarðar og talað um að hraunrennsli frá þeim geti náð til bæjarins. Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur, hefur í opinberri umræðu sagt að í framtíðinni verði Hafnarfjörður erfiðasta svæðið vegna náttúruvár vegna eldgosa. 

Til að mæta þessari umræðu hélt Samfylkingin í Hafnarfirði opinn borgarafund um málið þriðjudaginn 23. janúar. Frummælandi fundarins var einmitt áðurnefndur Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur. Yfirskrift fundarins var; Eldsumbrot – er Hafnarfjörður í hættu? Hann var afar vel sóttur og greinilegt að bæjarbúar hafa mikinn áhuga á málefninu. Að loknu erindi Ármanns hafði hann í nógu að snúast við að svara fyrirspurnum fundargesta og var um mjög upplýsandi fund að ræða. 

Á vegum Veðurstofu Íslands og Almannavarna er nú unnið  að gerð hættumats fyrir höfuðborgarsvæðið vegna mögulegrar goshættu í byggð og stefnt er að því að það liggi fyrir í vor. Hér er um að ræða alvörumál sem þarfnast opinnar og hreinskiptinnar umræðu. Það kom einmitt fram í máli Ármanns að mikilvægt væri að Hafnfirðingar og aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins hæfu umræðuna. Samfylkingin hefur þegar óskað eftir upplýsingum um það hvar sú vinna við gerð hættumats er stödd og farið fram á kynningu á henni í bæjarráði. Einnig höfum við kallað eftir viðbragðsáætlun Hafnarfjarðar vegna mögulegra eldsumbrota eða annars konar náttúruvár sem kann að hafa áhrif á byggð og íbúa í Hafnarfirði og við munum fylgja málinu eftir á næstu dögum og vikum á vettvangi bæjarstjórnar. Ekki má heldur gleyma að nú er hafin vinna við gerð nýs aðalskipulags fyrir bæinn og sú vinna ætti að taka mið af þróun þessara mála. 

Flestum er ljóst að hér er alvörumál á ferðinni sem þarf að nálgast af yfirvegun. Náttúruöflin eru ekki til að leika sér með en þau eru líka ólíkindatól og þróunin er mikilli óvissu háð. Það á bæði við um tímasetningar eldgosa sem og með hvaða hætti þau og hraunrennsli úr þeim þróast. Í þessari baráttu er rétt að mæta verkefninu af æðruleysi en á sama tíma er líka rétt að hafa fyrirhyggju að leiðarljósi.

Árni Rúnar Þorvaldsson

Ég er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og er fulltrúi flokksins í fjölskylduráði. Ég skipaði 3. sætið á lista Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningum vorið 2022 en þá vann Samfylkingin glæsilegan sigur og fékk fjóra bæjarfulltrúa. Jafnframt vinn ég sem grunnskólakennari við Smáraskóla í Kópavogi. Ég hef fjölbreytta reynslu af félagsstörfum bæði innan íþróttahreyfingarinnar og stéttarfélags kennara. Ég er kvæntur Ragnhildi Einarsdóttur, deildarstjóra í Lækjarskóla og saman eigum við þrjú börn.

Pin It on Pinterest