Hörðuvellir

Er 33% hækkun markvisst skref í átt að gjaldfrjálsum skólamáltíðum? 

Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks ákvað á síðasta bæjarstjórnarfundi að hækka gjaldskrá notenda vegna skólamáltíða í grunnskólum um 33% og um 19% í leikskólum. Þetta er mikil og íþyngjandi hækkun fyrir barnafjölskyldur í bænum og kemur harðast niður á þeim sem við kröppustu kjörin búa. Ákvörðunin kemur verulega á óvart enda í fullkomnu ósamræmi við málefnasamning meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Í honum segir nefnilega að stefnt verði að því að halda áfram að lækka álögur á barnafjölskyldur í skólakerfinu m.a. fyrir skólamáltíðir og markviss skref stigin í þá átt að gera þær gjaldfrjálsar. Erfitt er að átta sig á því hvernig 33% hækkun er markvisst skref í þá átt að gera skólamáltíðir gjaldfrjálsar. 

Er ekkert að marka málefnasamning meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks?

Málefnasamningur meirihlutans virtist raunar gleymdur og grafinn hjá bæjarfulltrúum meirihlutaflokkanna á síðasta bæjarstjórnarfundi. Svo rykfallinn var samningurinn að bæjarfulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks virtust eiginlega telja málefnasamninginn, sem á að heita grundvöllur meirihlutasamstarfsins, þessari ákvörðun með öllu óviðkomandi. Töldu hann ekkert erindi eiga í umræðuna. Eftir stendur þá spurningin; er ekkert að marka málefnasamning meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks? 

Mikilvæg þjónusta sem styður við góðan skólabrag 

Engum dylst mikilvægi hollrar næringar fyrir börn og unglinga og nemendur verja stórum hluta af degi sínum innan veggja skólanna. Á skólatíma er því afar mikilvægt að þeir hafi greiðan aðgang að næringarríkum mat. Því er brýnt að standa vörð um þessa mikilvægu þjónustu sem styður við góðan skólabrag. 

Forgangsröðun í boði og á ábyrgð meirihlutans 

Lausatök ríkisstjórnarinnar á efnahagsmálum valda öllum vandræðum. Þrálát verðbólga og vextir í hæstu hæðum leggjast þyngst á þær fjölskyldur sem búa við bágustu kjörin. Þrátt fyrir augljóst mikilvægi skólamáltíða og erfitt efnahagsumhverfi ákvað meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að koma ekki til móts við barnafjölskyldur í Hafnarfirði. Því miður mun ákvörðun Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks um að hækka gjaldskrá vegna skólamáltíða um 33% í grunnskólum og 19% í leikskólum leggjast þyngst á þann hóp sem fyrir er í viðkvæmri stöðu. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar, jafnaðarflokks Íslands, greiddu atkvæði gegn hækkuninni enda styður jafnaðarfólk ekki forgangsröðun af þessum toga. Hún er alfarið í boði, og á ábyrgð, meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.

Greinin birtis á vef Fjarðarfrétta 14. október 2023.

Árni Rúnar Þorvaldsson

Ég er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og er fulltrúi flokksins í fjölskylduráði. Ég skipaði 3. sætið á lista Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningum vorið 2022 en þá vann Samfylkingin glæsilegan sigur og fékk fjóra bæjarfulltrúa. Jafnframt vinn ég sem grunnskólakennari við Smáraskóla í Kópavogi. Ég hef fjölbreytta reynslu af félagsstörfum bæði innan íþróttahreyfingarinnar og stéttarfélags kennara. Ég er kvæntur Ragnhildi Einarsdóttur, deildarstjóra í Lækjarskóla og saman eigum við þrjú börn.

Pin It on Pinterest