Hörðuvellir

Faglegt starf leikskólans í uppnámi

Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í fræðsluráði hefur sett faglegt starf leikskóla í uppnám með ákvörðun sinni um að hætta sumarlokunum þeirra og hafa þá opna allt árið. Ákvörðun meirihlutans var illa undirbúin, vanhugsuð og tekin í miklum ágreiningi við stjórnendur, leikskólakennara og annað starfsfólk leikskólanna. Glundroði einkenndi samráðsferlið og ákvörðunin er illa kynnt. Nemendur og starfsfólk fyrsta skólastigsins eiga betra skilið en þessi óvönduðu vinnubrögð og vanvirðingu.

Atgervisflótti hafinn?

Frá því ákvörðun meirihluta fræðsluráðs lá fyrir hafa 19 leikskólakennarar sagt starfi sínu lausu og verstu spár leikskólastjórnenda um atgervisflótta úr stéttinni í Hafnarfirði virðast því ætla að rætast. Fulltrúar Samfylkingarinnar í fræðsluráði og bæjarstjórn hafa ítrekað lagt til að ákvörðuninni verði frestað eða dregin til baka en því hefur meirihlutinn hafnað.

Lausnin má ekki vera á kostnað faglegs starfs

Að sjálfsögðu verður að leita leiða til þess að koma til móts við þá foreldra og forráðamenn sem lenda í vandræðum vegna sumarlokana leikskóla. Lausnin á þeim vanda má hins vegar ekki vera á kostnað faglegs starfs og stuðla að atgervisflótta frá leikskólum Hafnarfjarðar. Hér ætti meirihlutinn fremur að nýta tækifærið og hefja uppbyggilegt samtal og vinnu með leikskóla- og foreldrasamfélaginu um leiðir til þess að leysa vandann og efla enn frekar metnaðarfullt starf leikskólanna. Meirihlutinn hefur hins vegar valið þá leið að efna til ófriðar og etja foreldrum og starfsfólki leikskólanna saman. Þannig á bæjarstjórn ekki að vinna.

Bæjarstjóri og formaður bæjarráðs leiti sátta

Nauðsynlegt er að oddvitar meirihlutaflokkanna, bæjarstjóri og formaður bæjarráðs, bregðist við stöðunni og hafi frumkvæði að því að verja starfsemi og faglegt starf leikskólanna. Lágmark er að þau sjái til þess að ákvörðuninni verði frestað og þess freistað að ná sáttum við leikskólasamfélagið. Ábyrg bæjarstjórn sem vill láta taka sig alvarlega getur einfaldlega ekki leyft sér svona vinnubrögð sem setja viðkvæmar og mikilvægar stofnanir eins og leikskólann í fullkomið uppnám.

Hefur meirihlutinn gleymt loforðum um bættar starfsaðstæður á leikskólum?

Á síðustu árum hefur mestur þunginn í umræðunni um leikskólamál snúið að bættum starfsaðstæðum. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og því afar mikilvægt að starfsaðstæður séu góðar og að leikskólinn sé aðlaðandi vinnustaður. Um þetta hafa allir flokkar í bæjarstjórn verið sammála hingað til en meirihlutinn virðist nú hafa gleymt þessu. Ákvörðun meirihlutans um sumaropnanir virðist því miður vinna gegn markmiðum um bættar starfsaðstæður á leikskólum.

Hagsmunir barna verði hafðir að leiðarljósi

Ákvarðanir af þessum toga verður að taka með hagsmuni og velferð barna að leiðarljósi. Erfitt er að halda því fram að atgervisflótti leikskólakennara úr bænum þjóni hagsmunum leikskólabarna í Hafnarfirði. Ábyrgðin hvílir á bæjarstjórn að stöðva þessa þróun og finna betri lausn í sátt við starfsfólk og foreldra með hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Samfylkingin leggur því til að bæjarstjórn komi saman við fyrsta tækifæri og dragi þessa vanhugsuðu ákvörðun meirihluta fræðsluráðs til baka.

Greinin birtist í Fjarðarfréttum 17.03.2021.

Pin It on Pinterest