Hafnarfjörður

Fjárhagsáætlun og tómhentur meirihluti

Meirihluti Framsóknar-  og Sjálfstæðisflokks hafði lítið fram að færa um gerð fjárhagsáætlunar á fundi bæjarstjórnar í gær. Á fundinum minntum við jafnaðarmenn á tillögu okkar frá því í sumar um að bæjarstjórn gæfi skýr fyrirheit þess efnis að gríðarleg hækkun fasteignamats leiði ekki sjálfkrafa til stórhækkunar á fasteignaskatti. Við munum í fjárhagsáætlunarvinnunni fylgja því fast eftir að álögur verði þær sömu á næsta ári og þær eru í ár að teknu tilliti til almennra verðlagsbreytinga til þess að verja fjölskyldur og fyrirtæki í Hafnarfirði fyrir þessari bóluhækkun á fasteignamatinu. Viðbrögð meirihlutans voru máttlítil og engin skýr svör að fá og engu líkara en að þessu stóra máli hefði enginn gaumur verið gefinn. Og því er ekkert sem hönd er á festandi varðandi fyrirætlanir meirihlutans með fasteignaskatta við upphaf fjárhagsáætlunarvinnunnar og meirihlutinn alls ekki tilbúinn að taka af öll tvímæli um þetta og gefa bæjarbúum sk´ýrt til kynna að auknar álögur verði ekki að veruleika á komandi ári.

Engin svör um gjaldfrjálsar skólamáltíðir og frístundastyrk

Á fundinum spurði ég fulltrúa meirihlutans einnig út í þau fyrirheit sem gefin eru í málefnasamningi flokkanna um markviss skref í átt að gjaldfrjálsum skólamáltíðum og um að frístundastyrkur verði fyrir börn frá þriggja ára aldri. Svörin við þessum spurningum voru jafn loðin og innihaldsrýr og um fasteignaskattana, ekkert sem hönd var á festandi, allt í skoðun og myndi koma í ljós. Pólitískar umræður eru áskorun í bæjarstjórn Hafnarfjarðar þegar meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks mætir alltaf tómhentur til leiks.

Árni Rúnar Þorvaldsson

Ég er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og er fulltrúi flokksins í fjölskylduráði. Ég skipaði 3. sætið á lista Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningum vorið 2022 en þá vann Samfylkingin glæsilegan sigur og fékk fjóra bæjarfulltrúa. Jafnframt vinn ég sem grunnskólakennari við Smáraskóla í Kópavogi. Ég hef fjölbreytta reynslu af félagsstörfum bæði innan íþróttahreyfingarinnar og stéttarfélags kennara. Ég er kvæntur Ragnhildi Einarsdóttur, deildarstjóra í Lækjarskóla og saman eigum við þrjú börn.

Pin It on Pinterest