Uppbygging hjúkrunarheimilis og heilsugæslu í Hamranesi er enn eina ferðina komin á byrjunarreit þökk sé stefnu- og verkleysi meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í málinu á undanförnum árum. Á fundi fjölskylduráðs fyrr í þessari viku var samþykkt að fela fjölskyldu- og barnamálasviði að vinna að fjölbreyttum útfærslum á markaðri lóð með áherslu á eldra fólk, heilsugæslu og heilsu- og lífsgæðatengdri starfsemi í þágu íbúa á svæðinu og í öllum Hafnarfirði. Við jafnaðarfólk í Hafnarfirði fögnum að sjálfsögðu öllum áformum um uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á þessu svæði enda hefur Samfylkingin barist fyrir henni um langt skeið fyrir daufum eyrum meirihlutans – því miður.
Sjálfstæðisflokkurinn hafnar hjúkrunarheimili í Skarðshlíð
Árið 2013 var samþykkt af öllum flokkum í bæjarstjórn að hefja undirbúning byggingu hjúkrunarheimilis í Skarðshlíð. Að baki þeirri ákvörðun lá mikil vinna sem náði aftur til ársins 2006. Sjálfstæðisflokkurinn snerist hins vegar gegn eign samþykkt þegar hann komst í meirihluta árið 2014 og hafnaði uppbyggingu hjúkrunarheimilis í Skarðshlíð. Bæjarstjórn ályktaði svo í október 2021 á síðasta kjörtímabili um mikilvægi þessarar þjónustu á svæðinu enda munu ríflega 10 þús. manns búa í Vallahverfi, Skarðshlíð og Hamranesi þegar hverfin verða fullbyggð. Þá var bæjarstjóra falið að fylgja málinu eftir við heilbrigðisráðuneytið. Skemmst er frá því að segja að lítið hefur frést af málinu síðan bæjarstjóra var falið að fylgja því eftir fyrir tæpu ári síðan.
Væntingastjórnun mikilvæg
Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks er því enn og aftur kominn á byrjunarreit með málið og þarf að álykta um það eina ferðina enn með minniháttar orðalagsbreytingum. Ekkert gerðist í málinu frá því Sjálfstæðisflokkurinn sló hjúkrunarheimili í Skarðshlíð út af borðinu 2014 og ekkert virðist hafa gerst í málinu síðan bæjarstjóra var falið að fylgja því eftir fyrir tæpu ári síðan. Vonandi verður þetta nýjasta útspil meirihlutans til þess að málið komist á einhvern rekspöl en miðað við hvernig meirihlutinn hefur haldið á málinu undanfarin kjörtímabili þá neyðist ég til að stilla væntingum mínum í hóf.