Stuðningur

Höfnuðu tillögu um eflingu sí- og endurmenntunar

Á bæjarstjórnarfundi í þessari viku lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar fram tillögu um að fræðsluráði yrði falið að móta tillögur um eflingu sí- og endurmenntunar í bænum. Fullkomið áhugaleysi og skortur meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á framtíðarsýn í þessum málaflokki varð til þess að meirihlutinn hafnaði tillögunni. Það voru veruleg vonbrigði að meirihlutinn gæti ekki fallist á tillöguna þar sem einungis var um að það að ræða að fræðsluráði yrði falið að taka málið til skoðunar og móta tillögur sem síðan yrðu lagðar fyrir bæjarstjórn. Tillagan fól ekki í sér nein fjárútlát fyrir bæinn eða neitt slíkt og þess vegna vekur það furðu að fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafi ekki séð sér fært að styðja jafn sjálfsagða tillögu. Afgreiðslan er birtingarmynd áhugaleysis og stefnuleysis meirihlutans í málaflokknum – því miður. Fulltrúi Viðreisnar studdi tillögu okkar jafnaðarfólks og var hún því felld með atkvæðum meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.

Íslenskunám fyrir nýja Íslendinga

Meginástæðan fyrir því að við jafnaðarfólk fluttum þessa tillögu í bæjarstjórn er það ákall sem er í samfélaginu fyrir bættu aðgengi að íslensku- og móðurmálsnámi allra þeirra sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Við vildum með henni fela fræðsluráði að finna íslenskukennslu fyrir nýja Íslendinga nýtt heimili í bænum í gegnum Námsflokka Hafnarfjarðar. Hér er brýnt að vinna að úrbótum því tungumálið er lykillinn að samfélaginu. Í því ljósi vekur það ennþá meiri furðu að meirihlutinn hafi hafnað jafn sjálfsagðri tillögu sem miðar að því að finna leiðir til þess að efla þessa starfsemi. Og slæmt að stefnuleysi meirihlutans skuli bitna á þessari mikilvægu starfsemi.

Árni Rúnar Þorvaldsson

Ég er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og er fulltrúi flokksins í fjölskylduráði. Ég skipaði 3. sætið á lista Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningum vorið 2022 en þá vann Samfylkingin glæsilegan sigur og fékk fjóra bæjarfulltrúa. Jafnframt vinn ég sem grunnskólakennari við Smáraskóla í Kópavogi. Ég hef fjölbreytta reynslu af félagsstörfum bæði innan íþróttahreyfingarinnar og stéttarfélags kennara. Ég er kvæntur Ragnhildi Einarsdóttur, deildarstjóra í Lækjarskóla og saman eigum við þrjú börn.

Pin It on Pinterest