Að frumkvæði jafnaðarfólks hafa húsnæðismál verið talsvert til umræðu í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að undanförnu. Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks felldi tillögu okkar í Samfylkingunni á síðasta bæjarstjórnarfundi um að ganga til viðræðna við innviðaráðherra, formann Framsóknarflokksins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um gerð húsnæðissáttmála fyrir Hafnarfjörð sambærilegan þeim sem Reykjavík hefur gert við ríkið. Þessi gamaldags viðbrögð meirihlutans við tillögu pólitískra andstæðinga voru dapur vitnisburður um áhuga- og getuleysi meirihlutans í þessum stóra og mikilvæga málaflokki.
12% íbúða á framkvæmdastigi á vegum óhagnaðardrifinna félaga
Í svörum við fyrirspurn Samfylkingarinnar í fjölskylduráði sem lögð voru fram á fundi ráðsins í dag kemur fram að aðeins 12% þeirra íbúða, sem eru á framkvæmdastigi í bænum í dag, eru á vegum óhagnaðardrifinna félaga. Það er langur vegur frá þeim 30% sem kveðið er á um í samkomulagi Reykjavíkur og ríkisins. Einnig endurspeglast í svörunum þung staða félagslega í´búðakerfisins hjá bæjarfélaginu. Bærinn er með 282 íbúðir í félagslega kerfinu en á biðlista eftir félagslegu húsnæði eru 190 umsóknir og rúmlega 70 þeirra teljast í mjög brýnni þörf. Þörfin á aðgerðum og átaki í húsnæðismálum þar sem félagslegar lausnir eru í forgrunni er því sannarlega til staðar.
Jafnaðarfólk mun áfram setja húsnæðismál á oddinn
Áhuga- og metnaðarleysi meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á jafn mikilvægu máli eru mikil vonbrigði. Og Hafnfirðingar tapa á því. Æskilegt er að setja verulegan aukinn kraft í þessa uppbyggingu en meirihlutinn skellir skollaeyrum við því og sefur áfram sínum þyrnirósarsvefni þegar nauðsynlegt væri að fylgja fordæmi Reykjavíkur og ganga til samninga við ríkið um húsnæðissáttmála til framtíðar. Við jafnaðarfólk munum halda áfram að berjast fyrir þessum áherslum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, halda meirihlutanum við efnið og knýja á um aðgerðir á vettvangi bæjarstjórnar.