Fjölskylduráð samþykkti á fundi sínum í gær að tímagjald NPA samninga taki mið af útreikningum NPA miðstöðvarinnar en þeir útreikningar taka mið af kjarasamningum NPA miðstöðvarinnar og Eflingar fyrir aðstoðarfólk NPA notenda. Breytingin er afturvirk til 1. janúar 2022 og málinu var vísað til viðaukagerðar og samþykktar í bæjarráði. Þetta þýðir að tímagjald allra samninga hækkar og það verður þá loksins orðið sambærilegt við tímagjald NPA samninga í öllum nágrannasveitarfélögunum.
Samþykkt með atkvæðum Framsóknar og Samfylkingar – Sjálfstæðisflokkur sat hjá
Við afgreiðslu málsins í fjölskylduráði vakti það auvitað nokkra eftirtekt að hækkun tímagjaldsins var samþykkt með atkvæðum Framsóknar og Samfylkingar en Sjálfstæðisflokkur sat hjá. Samfylkingarinna. Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar tók undir afgreiðslu Framsóknar og Samfylkingar í fjölskylduráði. Ánægjulegt er að málið skuli njóta svo breiðs stuðnings í fjölskylduráði.
Löng og ströng barátta
Samfylkingin, ásamt Bæjarlistanum, barðist nánast allt síðasta kjörtímabil fyrir þessari niðurstöðu en því miður fyrir daufum eyrum meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Sá málflutningur virðist nú loksins hafa náð eyrum Framsóknarflokksins og þessi niðurstaða í fjölskylduráði ánægjuleg. Þó hér hafi nú náðst ákveðinn áfangi í málinu þá verður að klára það sem allra fyrst með viðaukagerð við fjárhagsáætlun og afgreiðslu í bæjarráði. Aðalatriði málsins er að notendur NPA búi við öryggi og fyrirsjáanleika og að NPA notendur í Hafnarfirði sitji við sama borð og NPA notendur í öðrum sveitarfélögum. Ákvörðun fjölskylduráðs í gær er vonandi varða á þeirri leið. Um þessa ákvörðun fjölskylduráðs í gær má því vel nota orðin sem notuð voru um útkomu Vefarans Mikla Frá Kasmír – loksins loksins!