Grunnurinn að réttlátu samfélagi er jöfnuður og góð velferðarþjónusta fyrir alla. Jöfnuður og góð velferðarþjónusta skapa líka öruggara samfélag og er forsenda efnahagslegs stöðugleika. Það er skylda sveitarfélaganna að tryggja öllum aðgang að þeirri þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Með því drögum við úr áhrifum stéttaskiptingar og veitum fólki tækifæri til fullrar þátttöku í samfélaginu. Sterk almenn velferðarþjónusta er ein af grunnstoðum norrænna jafnaðarsamfélaga.
Tryggjum öllum mannsæmandi líf og virðum sjálfsákvörðunarrétt hvers og eins.
Velferðin er undirstaða góðs samfélags
Ég vil:
- bæjarfélag sem leitast við að tryggja öllum mannsæmandi líf þar sem áhersla er lögð á sjálfsákvörðunarrétta hvers og eins.
- stytta biðlista eftir félagslegu húsnæði á vegum bæjarins.
- útrýma biðlistum hjá fötluðu fólki eftir húsnæði við hæfi með því að tryggja fjölbreytt búsetuform eins og nýja íbúðakjarna og sjálfstæða búsetu með stuðningi.
- bæjarfélag sem lækkar álögur á barnafjölskyldur og tekjulægri hópa samfélagsins.
- stefna að raunverulega gjaldfrjálsum grunnskóla með því að bjóða nemendum upp á fríar skólamáltíðir.
- stefna að gjaldfrjálsum leikskóla.
- efla frístundaheimilin.
- tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.
- öfluga félagslega heimaþjónustu sem styður aldraða til búsetu í eigin húsnæði.
- að skoðaðar verði leiðir til þess að styðja enn betur við bakið á fólki með heilabilun í gegnum félagslegu heimaþjónustuna.I
- bæjarfélag sem styður fatlað fólk til þátttöku í samfélaginu þar sem mannleg reisn og sjálfsákvörðunarréttur einstaklinganna er í hávegum hafður.
Húsnæðismál eru mannréttindamál.
Skipulag, umhverfi og samgöngur
Mikilvægt er að skipulagsvinna sé unnin í virku samráði við íbúa og að litið sé til fjölbreyttra og ólíkra þátta í öllu skipulagi. Þar er um að ræða þætti eins og blöndun byggðar, umhverfismál og lýðheilsu. Umhverfis- og loftslagsmál eru mál sem sveitarfélagið á að flétta inn í alla sína stefnumótun og á það ekki síst við í skipulagsmálum. Í samgöngumálum er mikilvægt að efla almenningssamgöngur verulega og þar skiptir uppbygging Borgarlínu höfuðmáli. Út frá sjónarmiðum um vistvæna byggð og eflingu almenningssamgangna gegnir þétting byggðar lykilhlutverki.
Ég vil:
- efla almenningssamgöngur með Borgarlínu og öflugu innanbæjarkerfi strætó,
- fjölga rafhleðslustöðvum í bænum og hefja rafvæðingu bílaflota í eigu stofnana bæjarins,
- gera stórátak í að bæta göngu- og hjólastíga í bæjarlandinu og tengingar þeirra við önnur bæjarfélög,
- bæta aðstöðu fyrir útivistarfólk í upplandi Hafnarfjarðar,
- styðja við öfluga umhverfisfræðslu í skólum bæjarins,
- bæta grænu svæðin svo bæjarbúar geti notið útivistar og samverustunda,
- halda áfram þéttingu byggðar þar sem þess er kostur enda styður hún við ýmis mikilvæg verkefni t.d. uppbyggingu hvers kyns þjónustu og almenningssamgangna.
Virkt íbúalýðræði er forsenda góðs skipulags.
Menntun og fræðsla
Menntastefna Hafnarfjarðar á að byggja á gildum um jöfnuð, félagslegt réttlæti og mannréttindi. Leik- og grunnskólar eru grunnstoðir þar sem höfuðmarkmiðið er að tryggja börnum og ungmennum jöfn tækifæri til menntunar og þroska. Þess vegna leggjum við áherslu á skóla sem byggja á lýðræði, mannréttindum og jafnrétti, skóla sem fagnar fjölbreytileikanum og rúmar öll börn. Námið skapar svo tækifæri og möguleika sem áður stóðu ekki til boða. Það er verkefni skólanna að jafna stöðu nemenda eins og kostur er þannig að allir nemendur, óháð efnahag, nái að þroskast til þess að nýta þau tækifæri og þá möguleika sem þeim standa til boða. Þess vegna er það algjört grundvallaratriði að halda allri gjaldtöku í lágmarki í öllu skólastarfi á vegum bæjarfélagsins.
Mennt er máttur.
Leik- og grunnskóli – tvær mikilvægar stoðir menntakerfisins
Leik- og grunnskólar eru tvær af stærstu og mikilvægustu rekstrareiningum bæjarfélagsins. Þar verja börnin og unglingarnir okkar stórum hluta hvers dags og hvers árs. Þess vegna er mikilvægt að vanda til verka við rekstur þessara grunnstoða menntakerfisins. Innan þessara stofnana starfar öflugt og metnaðarfullt starfsfólk í fjölbreyttum störfum og bera hitann og þungann af starfseminni. Við verðum að búa þessu fólki góðar starfsaðstæður sem er til þess fallið að laða að enn fleira faglært starfsfólk.
Ég vil:
- bæta kjör og starfsumhverfi leikskólakennara ásamt því að auka tækifæri til menntunar og starfsþróunar,
- bæta kjör almenns starfsfólks leikskólanna þannig að það sé á sambærilegum kjörum og í nágrannasveitarfélögunum,
- tryggja gott og faglegt umhverfi sem laðar að gott starfsfólk á öllum skólastigum,
- vinna að leiðum til að draga úr álagi á starfsfólk leik- og grunnskóla,
- efla samstarf milli skólastiga,
- tryggja aukið sjálfstæði skóla og svigrúm þeirra til að móta sína eigin stefnu,
- styðja við öflugan tónlistarskóla og halda áfram að efla starf hans,
- halda gjaldtökum í skólakerfinu í algjöru lágmarki og taka skref í átt að gjaldfrjálsum leik- og grunnskóla,
- halda áfram að efla frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, vinnuskólann og ungmennahús enda eru þetta mikilvægar einingar sem veita börnum, unglingum og ungmennum mikilvægan stuðning utan skólatíma,
- tryggja fötluðum nemendum fullnægjandi aðstoð á skólatímum við allt sem viðkemur virkri þátttöku í námi og almennu skólastarfi.
Tryggjum öflugt og faglegt starf í leik- og grunnskólum bæjarins.
Frístundir
Fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf
Það er mikilvægt að bæjarfélagið styðji við fjölbreytta flóru frístundastarfs fyrir alla aldurshópa. Mikilvægt er að börn og ungmenni geti fundið frístundir við sitt hæfi og þau eiga að geta stundað faglegt og skipulagt íþrótta-og tómstundastarf og listnám óháð fjárhag foreldra þeirra. Einnig er mjög mikilvægt að stuðlað verði að þátttöku fatlaðra barna og barna með annað móðurmál í frístundastarfi.
Öll börn og ungmenni eiga að geta stundað skipulagt frístundastarf óháð efnahag.
Ég vil:
- halda áfram að hækka frístundastyrkinn sem og leita annarra leiða í samstarfi við félagasamtök um að lækka kostnað þátttakenda,
- auka samfellu í námi og frístundum barna og ungmenna,
- efla frístundastarf eldri borgara m.a. til þess að sporna gegn félagslegri einangrun,
- efla rekstur frístundabílsins,
- bæta aðgengi fatlaðra barna og barna af erlendum uppruna að hvers kyns frístundastarfi,
- auka aðgengi ungs fólks að hvers kyns skapandi greinum.
Sköpum blómlegt samfélag með fjölbreyttu frístundastarfi.
Styðjum við börn og foreldra
Það er mikilvægt að búa nýjum kynslóðum eins góð lífsskilyrði og unnt er. Leik- og grunnskólar, öflugt og skipulagt frístundastarf og sterk velferðarþjónusta gegna í því samhengi algjöru lykilhlutverki. Við eigum að styðja eins vel við bakið á foreldrum og mögulegt er svo börn búi ekki við fátækt og efnahagsleg staða foreldra má ekki skerða möguleika barna og unglinga til þátttöku í frístundastarfi.
Ég vil:
- styðja við börn og foreldra með því að lækka álögur á barnafjölskyldur og tekjulægri hópa samfélagsins,
- halda áfram að efla snemmtækan stuðning við börn, sérstaklega á fyrstu árum í lífi þeirra og tryggja verður viðeigandi úrræði fyrir börn og ungmenni með margþættan vanda,
- að öll börn og unglingar geti stundað frístundastarf óháð efnahag.
Bætum hag barnafjölskyldna.
Hafnarfjörður – samfélag þar sem gott er að eldast
Það er mikilvægt að við byggjum upp samfélag í Hafnarfirði þar sem gott er að eldast. Eldri borgarar eru ekki einsleitur hópur þar sem eitt gildir fyrir alla. Þetta er fjölbreyttur hópur sem á hafa tækifæri til þess að leggja til samfélagsins eftir getu og vilja hvers og eins. Bæjarfélaginu ber að tryggja eldri borgurum aðgang að fjölbreyttu og heppilegu húsnæði sem mætir þörfum þessa hóps. Öflug félagsleg heimaþjónusta er lykilforsenda þess að styðja við eldri borgara til að búa á og reka eigin heimili.
Ég vil:
- öfluga félagslega heimaþjónustu sem styður aldraða til búsetu í eigin húsnæði,
- styðja enn betur við bakið á fólki með heilabilun og aðstandendur þeirra,
- halda áfram að berjast fyrir fjölgun hjúkrunarrýma í bænum m.a. með uppbyggingu heilsugæslu og hjúkrunarheimilis í Hamranesi,
- tryggja nægt framboð fjölbreytts og heppilegs húsnæðis fyrir eldri borgara,
- efla enn frekar starfsemi öldungaráðs þannig að tryggt sé að eldri borgarar geti haft bein áhrif á ákvarðanir bæjarfélagsins sem varða þeirra málefni.
Hafnarfjörður á að vera fyrirmyndarsamfélag þar sem gott er að eldast.
Virðum réttindi fatlaðs fólks
Ég legg áherslu á að öll þjónusta við fatlað fólk grundvallist á virðingu fyrir sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti hvers einstaklings. Mikilvægt er að virða þau grundvallarmannréttindi að fatlað fólk hafi aðgang að húsnæði við hæfi. Tryggja verður fötluðu fólki fullt aðgengi á öllum sviðum samfélagsins og bæjarfélagið verður að stuðla að því að fatlaðir einstaklingar hafi tækifæri til sjálfstæðs lífs.
Ég vil:
- útrýma biðlistum hjá fötluðu fólki eftir húsnæði við hæfi með því að tryggja nægt framboð af fjölbreyttu búsetuformi eins og nýja íbúðakjarna og sjálfstæða búsetu með stuðningi,
- gera Hafnarfjörð að fyrirmyndarbæ í aðgengismálum þannig að bærinn verði aðgengilegur fyrir alla,
- halda áfram að fjölga NPA samningum hjá bæjarfélaginu þannig að fleiri geti nýtt sér þá þjónustu,
- halda áfram að efla ferðaþjónustu fatlaðs fólk.
Tryggjum fötluðu fólki tækifæri til sjálfstæðs lífs.
Húsnæði fyrir alla
Hlutverk sveitarfélaganna þegar kemur að húsnæðisöryggi er veigamikið. Það er þeirra að tryggja nægjanlegt framboð af lóðum undir fjölbreytt húsnæði fyrir alla. Það eru einfaldlega mannréttindi að þurfa ekki að lifa við óvissu og óöryggi um þak yfir höfuðið. Mikilvægt er að í allri húsnæðisuppbyggingu sé hugað að félagslegri blöndun. Hafnarfjörður á að vera eitt samfélag fyrir alla.
Ég vil:
- stytta biðlista eftir félagslegu húsnæði á vegum bæjarins,
- tryggja nægt framboð af hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur,
- stuðla að uppbyggingu öflugs leigumarkaðar með sérstakri áherslu á samstarf við óhagnaðardrifin leigufélög eins og Bjarg þar sem áhersla er lögð á leiguíbúðir fyrir tekjulægri hópa samfélagsins.
Húsnæðismál eru mannréttindamál.
Hugum að lýðheilsu, heilsueflingu og forvörnum
Það er mikilvægt að sveitarfélagið hugi að lýðheilsu og heilsueflingu í sinni stefnumótun. Ekki er þetta síst mikilvægt þegar kemur að starfsmannastefnu sveitarfélagsins sem og í skipulagsmálum. Einnig er mikilvægt að sveitarfélagið leitist við að efla forvarnir á sem flestum sviðum samfélagsins.
Ég vil:
- gera stórátak í forvarnarmálum hjá bænum, sem lúta m.a. að forvörnum gegn eiturlyfjum, áfengi og hvers kyns ofbeldi,
- berjast fyrir eflingu heilsugæslunnar og fjölgunar heimilislækna í bænum,
- berjast fyrir heildrænni þjónustu við fjölskyldur langveikra barna sem mætir raunverulegri þörf,
- berjast fyrir fjölgun sálfræðinga í skólum og heilsugæslum,
- halda áfram að efla heilsueflingarverkefni fyrir eldri borgara.
Stuðlum að virkri þátttöku allra í samfélaginu.
Fjölbreytt samfélag er gott samfélag
Bætt staða innflytjenda er réttlætismál og stuðlar að betra samfélagi fyrir okkur öll. Tungumálið er lykillinn að samfélaginu og tryggja verður að innflytjendur hafi aðgang að gjaldfrjálsu eða ódýru íslenskunámi. Á sveitarfélaginu hvíla ríkar skyldur um að leita allra leiða til þess að virkja fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu.
Ég vil:
- auka aðgengi nýrra Íslendinga í Hafnarfirði að íslensku – og móðurmálsnámi,
- efla þjónustu við nýja Íslendinga og hjálpa þeim fjölskyldum sem hafa nú þegar sest að í bænum að aðlagast samfélaginu sem best,
- efla eins og kostur er starfsemi fjölmenningarráðs með það markmiði að auka þátttöku innflytjenda í samfélaginu til þess að tryggja aðkomu þeirra að málum sem þeim tengjast.
Höfum alltaf mannúð og mannréttindi allra að leiðarljósi.
Fátækt er samfélagsmein
Það er pólitísk ákvörðun að viðhalda fátækt og það er öllum börnum og unglingum erfið lífsreynsla að alast upp við fátækt. Hafnarfjörður á að hafa það á stefnuskrá sinni að útrýma fátækt og koma í veg fyrir að börn og unglingar þurfi að alast við þannig aðstæður. Það eru hópar eins og einstæðir foreldrar í láglaunastörfum, öryrkjar, eldri borgarar með lítil eftirlaunaréttindi og innflytjendur sem eiga í mestri hættu á að lifa við fátækt á Íslandi og bæjarfélaginu ber skylda til þess að styðja við þessa hópa eins og kostur er.
Ég vil:
- að fátækt barna og ungmenna í bænum verði kortlögð og aðgerðaáætlun mótuð til að koma til móts við þennan hóp á grunni úttektarinnar,
- að Hafnarfjörður móti þá stefnu að enginn búi við fátækt í bænum og styðji við þá stefnu með raunverulegum aðgerðum.
Útrýmum fátækt.
Jafnrétti, lýðræði og stjórnsýsla
Verkefni sveitarfélaganna eru mörg og fjölbreytileg. Hjá þeim er stór hluti nærþjónustunnar og velferðarþjónustunnar. Þess vegna skiptir miklu máli að þau sem halda utan um rekstur bæjarfélagsins séu meðvituð um að þau eru þjónar bæjarbúa og leitist við að tryggja almannahag í allri sinni vinnu og ákvarðanatöku bæjarstjórnar. Mikilvægt er að bæjarstjórn leiti fjölbreyttra leiða til þess að tryggja lýðræðislega aðkomu að ákvörðunum bæjarstjórnar og að vinnubrögð stjórnsýslunnar séu fagleg, opin og vönduð. Ég vil sjá virkt íbúalýðræði þar sem jafnréttisgleraugunum er beitt í allri stefnumótun og ákvarðanatöku bæjarstjórnar.
Alvöru íbúalýðræði!
Ég vil:
- virkt samráð við íbúa og íbúalýðræði,
- halda áfram að efla og styðja ungmennaráð, öldungaráð og notendaráð fatlaðs fólks og þau verði enn virkari þátttakendur í ákvörðunum sem snúa að þeim,
- skoða möguleika að koma á hverfaráðum í bænum svo íbúar eigi greiðari leið að stjórnsýslunni með þau mál sem snúa að einstökum hverfum í bænum,
- skilvirka og opna stjórnsýslu sem þjónar bæjarbúum hratt og vel,
- að bærinn leggi áherslu á að jafna stöðu kynjanna og leggi sitt að mörkum til þess að útrýma kynbundnum launamun,
- að Hafnarfjörður skipi sér í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks, kynsegin fólks og fólks með ódæmigerð kyneinkenni,
- að bærinn nýti alla möguleika til þess að vinna gegn hvers kyns fordómum í samfélaginu og vinni markvisst að forvörnum og fræðslu gegn ofbeldi í samstarfi við lögreglu og grasrótarhreyfingar og líta verður sérstaklega til jaðarsettra hópa sem eru í meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi.
Höfum jafnrétti alltaf í forgrunni.