Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar næsta árs hafnaði meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks öllum tillögum Samfylkingarinnar, stórum sem smáum. Tillögur okkar jafnaðarfólks voru að fullu fjármagnaðar og tillögum okkar var ætlað að lappa upp á götótta og metnaðarlausa fjárhagsáætlun meirihlutans. Tillögurnar voru fjölbreyttar, kostnaður ólíkur og í einhverjum tilvikum höfðu þær lítinn sem engan kostnaðarauka í för með sér. Það breytti engu. Fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks felldu þær allar af því þær komu frá Samfylkingunni. Ódýr pólitík.
Höfnuðu eigin stefnumálum
Ákveðni og eindrægni meirhlutans við að fella allar tillögur okkar jafnaðarfólks tók á sig nokkuð kómískar myndir. Til að mynda felldi meirihlutinn tillögur sem er að finna í þeirra eigin samstarfssáttmála, þ.e. þau felldu sín eigin stefnumál af því tillögurnar komu frá Samfylkingunni. Þá spyr maður sig hvort mark sé takandi á meirihlutasáttmálanum fyrst alvaran er ekki meira en þetta.
Fjárhagsáætlun á erindi við bæjarbúa
Það var svo eins og að vera staddur í miðjum Fóstbræðraskets þegar meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks felldi tillögu okkar um opinn kynningarfund fyrir bæjarbúa um fjárhagsáætlunina. Virðingin fyrir lýðræðinu greinilega ekki meiri en svo og áhuginn á íbúalýðræði enginn. Ekki er hægt að segja að risið sé hátt á meirihluta sem hefur ekki áhuga á – eða þorir ekki – að hitta bæjarbúa og ræða við þá milliliðalaust um fjárhagsáætlun næsta árs, þetta lykilverkfæri í stjórnun bæjarins. Bæjarstjórn á að nýta allar mögulegar leiðir til þess að auka þátttöku íbúa í stjórnun bæjarins. Og fjárhagsáætlun á sannarlega erindi við íbúa. Því voru það veruleg vonbrigði að bæjarfulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks skyldu hafna þessari tillögu Samfylkingarinnar um eðlilegt og æskilegt samráð við bæjarbúa um fjárhagsáætlun 2023.