Á bæjarstjórnarfundi í gær, miðvikudaginn 1. febrúar, felldi meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks tillögu Samfylkingarinnar um að ganga til viðræðna við innviðaráðherra og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um myndarlega húsnæðisuppbyggingu í bænum á næstu árum. Í júlí sl. var undirritaður rammasamningur milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um húsnæðisáætlun Íslands 2023-2032. Í samningnum er lögð sérstök áhersla á uppbyggingu hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði þannig að hlutfall þeirra verði 30% nýrra íbúða sem og uppbyggingu félagslegra íbúða þannig að hlutfall þeirra verði 5% nýrra íbúða. Reykjavík hefur riðið á vaðið og gert tímamótasamkomulag við innviðaráðherra og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um stórfellda uppbyggingu á næstu árum. Mikilvægt er að önnur sveitarfélög fylgi fordæmi Reykjavíkur.
Þögn Framsóknar ærandi
Venju samkvæmt tjáðu fulltrúar meirihlutans takmarkað um tillöguna á fundi bæjarstjórnar. Bæjarstjóri tók stuttlega til máls og erfitt var að skilja mál hennar öðruvísi en svo að meirihlutinn myndi styðja tillöguna – kannski með einhverjum breytingum. En svo köstuðu þau grímunni. Aldrei stóð til að samþykkja tillögu okkar jafnaðarfólks. Flokkssystkini innviðaráðherra, formanns Framsóknarflokksins, þögðu þunnu hljóði um þetta stóra mál á fundinum, höfðu ekkert fram að færa og þögnin var ærandi. Því miður kom það ekki á óvart.
Bæjarstjóri byrjuð að vinna að málinu en gleymdi bara að láta vita af því
Í máli bæjarstjóra kom hins vegar fram að hún væri byrjuð að vinna að málinu, að hún hefði nú þegar hafið viðræður við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Hún hefði bara gleymt að láta vita af því. Við í Samfylkingunni væntum þess auðvitað að bæjarstjóri muni gera ítarlega grein fyrir þessari vinnu á næsta bæjarstjórnarfundi. Við munum alla vega reyna að sjá til þess að hún gleymi því ekki. Hjá meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Hafnarfjarðar virðist það til marks um góð og vönduð vinnubrögð að unnið sé að jafn mikilvægum málum á bakvið luktar leyndardyr.
Vitnisburður um fullkomið áhuga- og metnaðarleysi
Því miður þá einkennast öll vinnubrögð og viðbrögð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks af áhuga- og metnaðarleysi í þessum mikilvæga málaflokki sem snertir alla bæjarbúa sem og alla framtíðarbæjarbúa. Málið hefur aldrei verið sett á dagskrá af hálfu meirihlutans þótt samkomulag ríkis og sveitarfélaga hafi legið fyrir frá því í júlí sl. Þegar Samfylkingin svo setur málið á dagskrá þá fella fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks tillöguna því þeir geta ekki hugsað sér að frumkvæðið komi frá okkur jafnaðarfólki. Viðbrögð meirihlutans felast hins vegar í því að bæjarstjóri upplýsir vandræðalega að hún sé nú byrjuð að vinna að málinu – svona rétt til þess að meirihlutinn haldi nú andlitinu. Það tókst hins vegar ekki.