Stuðningur

Meirihlutinn vill ekki íslenskukennslu í Hafnarfirði

Fjölmenningarráð Hafnarfjarðar hefur bent á að mjög mikill skortur er á íslenskukennslu í Hafnarfirði. Í fundargerð síðasta fundar ráðsins kemur fram engin íslenskukennsla fari lengur fram í Námsflokkum Hafnarfjarðar og að ekki sé hægt að stunda nám í íslensku í bænum. Eina undantekningin er að Ástjarnarkirkja sé stundum með námskeið. Fjölmenningarráð bendir einnig á að erfitt og dýrt sé fyrir fólk að sækja námskeið til Reykjavíkur og að brýnt sé að fólki sé gert kleift að stunda íslenskunám á vinnutíma. 

Tungumálið lykillinn að samfélaginu 

Fulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, fræðsluráði og fjölskylduráði hafa á undanförnum mánuðum barist fyrir því að þessi mál verði tekin fastari tökum hjá Hafnarfjarðarbæ. Við teljum að mikil þörf sé til staðar fyrir íslenskukennslu og að bæjarfélagið hafi skyldum að gegna í þessu sambandi. Tungumálið er lykillinn að samfélagslegri þátttöku og við eigum gera fólki sem býr hér og er ekki með íslensku sem móðurmál eins hægt um vik og mögulegt er til þess að læra íslensku – og það á helst að gerast því að kostnaðarlausu og á vinnutíma. 

Áhugaleysið staðfest í bæjarstjórn

Í ljósi orða fjölmenningarráðs lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar til að á næsta ári yrðu settar 30 milljónir í íslenskukennslu á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Þeirrar tillögu biðu sömu örlög og annarra tillagna okkar jafnaðarfólks – fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, meirihlutans í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, höfnuðu henni. Áhugaleysi meirihlutaflokkanna á á þessu mikilvæga máli þar með endanlega staðfest í bæjarstjórn – því miður. 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Ég er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og er fulltrúi flokksins í fjölskylduráði. Ég skipaði 3. sætið á lista Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningum vorið 2022 en þá vann Samfylkingin glæsilegan sigur og fékk fjóra bæjarfulltrúa. Jafnframt vinn ég sem grunnskólakennari við Smáraskóla í Kópavogi. Ég hef fjölbreytta reynslu af félagsstörfum bæði innan íþróttahreyfingarinnar og stéttarfélags kennara. Ég er kvæntur Ragnhildi Einarsdóttur, deildarstjóra í Lækjarskóla og saman eigum við þrjú börn.

Pin It on Pinterest