Kvöld við Hafnarfjarðarhöfn

Næturstrætó í Hafnarfjörð á nýjan leik – þökk sé baráttu jafnaðarfólks 

Löng barátta jafnaðarfólks í bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrir því að hefja að nýju akstur næturstrætós milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar bar loks árangur á fundi bæjarstjórnar í gær. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í samvinnu við bæjarfulltrúa Viðreisnar hafa margoft lagt fram tillögur um að endurvekja næturstrætó í Hafnarfirði. Hingað til hefur málflutningur okkar mætt daufum eyrum meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks og áhugaleysi meirihlutans á málinu hefur verið algjört. Allt frá því að jafnaðarmenn lögðu fram fyrstu tillöguna um málið í byrjun árs hafa fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks þvælst fyrir málinu og fellt tillögur okkar eða vísað þeim frá ítrekað. Dýrmætur tími hefur því farið til spillis vegna áhugaleysis og endurtekinna tafaleikja meirihlutans. 

Meirihlutinn lætur af andstöðu sinni við næturstrætó – loksins 

Á fundi bæjarstjórnar í gær lögðu fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar fram í enn eitt skiptið skýra og afdráttarlausa tillögu í málinu, sem meirihlutinn felldi enn og aftur. En þá gerðist það að meirihlutinn lagði fram sína eigin tillögu sem var að mestu efnislega samhljóða tillögu okkar sem bæjarstjórn samþykkti. Við jafnaðarfólk fögnum sinnaskiptum meirihlutans í málinu og hann hafi loksins látið af andstöðu sinni við næturstrætó. Betra er seint en aldrei.

Mikilvæg þjónusta sem stuðlar að auknu öryggi

Ástæðan fyrir því að jafnaðarfólk hefur barist fyrir því að endurvekja næturstrætó er sú að um er að ræða mikilvæga þjónustu sem stuðlar að auknu öryggi og kemur til móts við þarfir unga fólksins í bænum. Á sínum tíma var næturaksturinn milli höfuðborgarinnar og Hafnarfjarðar vel nýttur og var rekstur þeirrar leiðar í jafnvægi. Síðan Strætó ákvað að hætta með næturstrætó í hagræðingarskyni þá hafa bæði Reykjavíkurborg og Mosfellsbær samið við Strætó um að hefja akstur næturstrætó að nýju. Og nú er komið að Hafnarfirði – loksins. 

Vinna og barátta Samfylkingarinnar skilar árangri 

Í framhaldinu mun jafnaðarfólk leggja sitt af mörkum til þess að unnið verði að málinu af festu og krafti með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi. Enda var málið á dagskrá bæjarstjórnar að frumkvæði Samfylkingarinnar og ánægjulegt er að sú mikla vinna og barátta sem við höfum lagt í þetta brýna mál hafi loks borið árangur. 

Greinin birtist á vef Fjarðarfrétta 31. ágúst 2023

Árni Rúnar Þorvaldsson

Ég er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og er fulltrúi flokksins í fjölskylduráði. Ég skipaði 3. sætið á lista Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningum vorið 2022 en þá vann Samfylkingin glæsilegan sigur og fékk fjóra bæjarfulltrúa. Jafnframt vinn ég sem grunnskólakennari við Smáraskóla í Kópavogi. Ég hef fjölbreytta reynslu af félagsstörfum bæði innan íþróttahreyfingarinnar og stéttarfélags kennara. Ég er kvæntur Ragnhildi Einarsdóttur, deildarstjóra í Lækjarskóla og saman eigum við þrjú börn.

Pin It on Pinterest