Stuðningur

NPA samningar – jafnaðarmenn knýja fram réttarbót fyrir fatlað fólk í Hafnarfirði

Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur sýnt fötluðu fólki fálæti og áhugaleysi undanfarin ár. Með því að fylgja ekki útreikningum NPA miðstöðvarinnar á tímagjaldi NPA samninga, sem byggja á gildandi kjarasamningum NPA miðstöðvarinnar og Eflingar fyrir aðstoðarfólk NPA, hefur meirihlutinn hlunnfarið notendur NPA í Hafnarfirði. Það hefur að sjálfsögðu haft alvarlegar afleiðingar fyrir notendur NPA í bænum. En við jafnaðarmenn höfum barist gegn þessu óréttlæti meirihlutans frá fyrstu stundu. Og sú barátta hefur loksins borið árangur.

Farið á svig við reglugerð ráðherra

Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks taldi sig ekki bundinn af útreikningum NPA miðstöðvarinnar og miðaði sína útreikninga ekki við kjarasamninga heldur launavísitölu þrátt fyrir skýr ákvæði í reglugerð félagsmálaráðherra um hið gagnstæða. Niðurstaðan af þessari sérvisku meirihlutans hefur verið notendum NPA í Hafnarfirði dýr. Fatlað fólk í Hafnarfirði, notendur NPA, hafa ekki setið við sama borð og NPA notendur í nágrannasveitarfélögunum og búið við lakari kjör enda hafa öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hækkað sitt tímagjald í samræmi við útreikninga NPA miðstöðvarinnar. Samfylkingin hefur bæði lagt fram tillögur í bæjarstjórn og fjölskylduráði til þess að stöðva þetta óréttlæti en meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur staðfastlega hafnað þeim tillögum okkar og komið þannig í veg fyrir þessa réttarbót fyrir fatlað fólk – þar til nú.

Meirihlutinn klofnar

Líkt og greint var frá í fréttum í síðustu viku þá klofnaði meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í málinu þegar það var afgreitt í fjölskylduráði. Þá var það samþykkt af fulltrúum Samfylkingar og Framsóknar að fylgja útreikningum NPA miðstöðvarinnar við ákvörðun tímagjalds NPA samninga hjá bænum og að sú leiðrétting væri afturvirk til 1. janúar 2022. Fulltrúi Sjálfstæðisflokks í fjölskylduráði sat hjá við afgreiðsluna. Í bæjarráði og svo bæjarstjórn hefur málið nú verið samþykkt með atkvæðum allra flokka og því ljóst að Framsóknarflokkurinn hefur beygt Sjálfstæðisflokkinn með því að taka höndum saman við okkur jafnaðarmenn í þessu sjálfsagða réttlætismáli. Við jafnaðarmenn bindum vonir við að Framsóknarflokkurinn haldi áfram að setja félagslegar áherslur á oddinn og að áfram verði þannig mögulegt að koma góðum framfaramálum áleiðis í bæjarstjórn í samstarfi við Framsóknarflokkinn.

Baráttan heldur áfram

Þó ánægjulegt sé að barátta Samfylkingarinnar í þessu mikilvæga máli í þágu fatlaðs fólks hafi nú loks borið árangur er það óásættanlegt að fatlað fólk sé sett í þá stöðu að þurfa að berjast fyrir jafn sjálfsögðum réttindum. En baráttunni fyrir réttlæti og jöfnuði lýkur aldrei og jafnaðarmenn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar munu halda áfram að berjast í þágu fatlaðs fólks þar sem yfirmarkmiðið er að fatlað fólk geti notið sjálfstæðis í lífi sínu til jafns við ófatlað fólk og að sjálfsákvörðunarréttur hvers og eins sé virtur.

Greinin birtist á Vísi 2. sept. 2022.

Árni Rúnar Þorvaldsson

Ég er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og er fulltrúi flokksins í fjölskylduráði. Ég skipaði 3. sætið á lista Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningum vorið 2022 en þá vann Samfylkingin glæsilegan sigur og fékk fjóra bæjarfulltrúa. Jafnframt vinn ég sem grunnskólakennari við Smáraskóla í Kópavogi. Ég hef fjölbreytta reynslu af félagsstörfum bæði innan íþróttahreyfingarinnar og stéttarfélags kennara. Ég er kvæntur Ragnhildi Einarsdóttur, deildarstjóra í Lækjarskóla og saman eigum við þrjú börn.

Pin It on Pinterest