Árni Rúnar Þorvaldsson

Plan í heilbrigðis- og öldrunarmálum – þjóðarátak í umönnun eldra fólks 

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG hefur ekki staðið við eigin loforð og fyrirheit í mörgum málaflokkum. Má í því sambandi nefna áform um fjölgun hjúkrunarrýma um rúmlega 700, nýtt meðferðarheimili fyrir unglinga og uppbyggingu nýrrar björgunarmiðstöðvar í Reykjavík. Allt ber að sama brunni. Við okkur blasir algjört úrræða- og getuleysi Sjálfstæðisflokksins og fylgitungla hans á síðustu sjö árum. 

Verkleysi fráfarandi ríkisstjórnar hefur meðal annara bitnað illilega á innviðum í heilbrigðis- og öldrunarmálum. Þar sýna verkin merkin. Ríkisstjórnin sjálf setti sér það markmið að fjölga hjúkrunarrýmum um rúmlega 700 en á sjö ára starfstíma hennar hefur þeim einungis fjölgað um rétt rúmlega 200. Það vantar því 500 rými til þess að markmiðinu sé náð. Hann er langur vegurinn hjá ríkisstjórnarflokkunum frá orðum til gjörða. 

Sleifarlag fráfarandi ríkisstjórnar í uppbyggingu hjúkrunarrýma og fjármögnun heimahjúkrunar veldur því að eldra fólk er geymt á göngum sjúkrahúsa. Það er óboðleg þjónusta en það er líka sóun á skattfé almennings. Legurými á sjúkrahúsi er dýrasta úrræðið sem völ er á innan heilbrigðiskerfisins sem þýðir að fjárfesting í heimaþjónustu og fjölgun hjúkrunarrýma mun leiða til sparnaðar í kerfinu í heild – og augljóslega til betri þjónustu fyrir eldra fólk. 

Samfylkingin ætlar að leiða þjóðarátak í umönnun eldra fólks, þjóðarátak sem grundvallast á virðingu fyrir eldra fólki þannig að það geti lifað lífi sínu með reisn. Eldra fólk og aðstandendur þess á að upplifa öryggi þegar það leitar til heilbrigðiskerfisins og öldrunarþjónustunnar en ekki öryggisleysi. Samfylkingin er með plan í þessum málum eins og öðrum mikilvægum málum. Við ætlum að setja viðkvæmasta hópinn í forgang með áherslu á öfluga heimaþjónustu og ætlum í þjóðarátak á uppbyggingu og fjármögnun hjúkrunarrýma fyrir þau sem ekki geta búið heima. Mikilvægast er að stjórnvöld viðurkenni að þetta kostar fjármuni og útheimtir pólitíska forgangsröðun. Nánar er hægt að lesa um örugg skref okkar í heilbrigðis- og öldrunarmálum hér https://xs.is/orugg-skref 

Eftir sjö ár þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengst af ráðið ferðinni í ríkisfjármálunum er þörf á uppfærslu í heilbrigðis- og öldrunarmálum. Samfylkingin er tilbúin að ganga í verkin. Valkostirnir í þessum kosningum gætu ekki verið skýrari; áframhaldandi glundroði og úrræðaleysi Sjálfstæðisflokksins, þar sem almannahagsmunir láta ávallt í minni pokann fyrir sérhagsmunum, eða stefnufesta og skýrt plan Samfylkingarinnar með Kristrúnu Frostadóttur í broddi fylkingar með almannahag að leiðarljósi. Veiti kjósendur okkur umboð í kosningunum 30. nóvember nk. þá er Samfylkingin tilbúin að taka við stjórn landsins undir traustri forystu Kristrúnar Frostadóttur og þá munum við leiða þjóðarátak í umönnun eldra fólks og láta verkin tala í heilbrigðis- og öldrunarmálum.

Greinin birtist á Vísi.is þann 14. nóv. 2024

Árni Rúnar Þorvaldsson

Ég er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og er fulltrúi flokksins í fjölskylduráði. Ég skipaði 3. sætið á lista Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningum vorið 2022 en þá vann Samfylkingin glæsilegan sigur og fékk fjóra bæjarfulltrúa. Jafnframt vinn ég sem grunnskólakennari við Smáraskóla í Kópavogi. Ég hef fjölbreytta reynslu af félagsstörfum bæði innan íþróttahreyfingarinnar og stéttarfélags kennara. Ég er kvæntur Ragnhildi Einarsdóttur, deildarstjóra í Lækjarskóla og saman eigum við þrjú börn.

Pin It on Pinterest