Áherslur

Rýr svör bæjarstjóra um húsnæðissáttmála

Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur haldið tvo fundi með Húsnæðis- og mannvirkjastofnuna um gerð húsnæðissáttmála fyrir Hafnarfjörð. Annar fundanna fór fram daginn fyrir síðasta bæjarstjórnarfund eftir að tillaga okkar í Samfylkingunni um að ganga til samninga við ríkið um húsnæðissláttmála var lögð fram. Þetta kom fram í svörum við fyrirspurn okkar í Samfylkingunni á fundi bæjarráðs í gær. Fyrirspurnin sneri að þeim orðum bæjarstjóra á síðasta bæjarstjórnarfundi að vinna við gerð húsnæðissáttmála væri þegar hafin en hún hefði bara gleymt að láta bæjarstjórn vita af því.

Lítil vinna og engin samningsmarkmið

Svörin staðfesta í raun að lítil sem engin vinna hefur farið fram og stór hluti hennar fer af stað eftir að tillaga jafnaðarfólks var lögð fram. Haldnir hafa verið tveir fundir með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og að unnið sé að uppfærslu á húsnæðisáætlun bæjarins. Ekkert kemur fram í svörunum um samningsmarkmið Hafnarfjarðar í þessum viðræðum.

Minnihlutanum haldið frá vinnunni

Það er einnig verulega gagnrýnivert að þessari vinnu, þó takmörkuð sé, að minnihlutana hafi verið haldið algjörlega utan hennar. Húsnæðisamál varða alla Hafnfirðinga en þá háttar svo til þessi vinna fer fram bakvið luktar dyr bæjarstjóra. Það eru verulega ólýðræðisleg vinnubrögð í svo stóru máli sem varðar almannahagsmuni. Enda kröfðust fulltrúar Samfylkingarinnar virkrar aðkomu að næstu skrefum í málinu í bókun á fundi bæjarráðs í gær.

Áhuga- og metnaðarleysi meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks

Svör við fyrirspurn Samfylkingarinnar í fjölskylduráði, sem lögð voru fram á síðasta fundi ráðsins, staðfesta svo að þörf er á stórátaki í húsnæðismálum í Hafnarfirði. Mikil þörf er á fjölgun félagslegra íbúða og einungis 12% íbúða í byggingu í bænum eru á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga. Órafjarri þeim 30% sem stefnt er að í samningi Reykjavíkur og ríkisins. Enn og aftur opinberast áhuga- og metnaðarleysi meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í þessum mikilvæga málaflokki. Þyrnirós vaknaði að lokum af sínum þyrnirósarsvefni en meirihlutinn í bæjarstjórn sefur enn og spurning hvenær hann vaknar af sínum þyrnirósarsvefni.

Árni Rúnar Þorvaldsson

Ég er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og er fulltrúi flokksins í fjölskylduráði. Ég skipaði 3. sætið á lista Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningum vorið 2022 en þá vann Samfylkingin glæsilegan sigur og fékk fjóra bæjarfulltrúa. Jafnframt vinn ég sem grunnskólakennari við Smáraskóla í Kópavogi. Ég hef fjölbreytta reynslu af félagsstörfum bæði innan íþróttahreyfingarinnar og stéttarfélags kennara. Ég er kvæntur Ragnhildi Einarsdóttur, deildarstjóra í Lækjarskóla og saman eigum við þrjú börn.

Pin It on Pinterest