Árni Rúnar Þorvaldsson

Sögulegt tækifæri til breytinga með Samfylkingunni 

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, nýtur yfirburðatrausts hjá kjósendum til að leiða næstu ríkisstjórn sem forsætisráðherra. Þetta sýna kannanir. Til þess að það nái fram að ganga verður Samfylkingin að fá sterka kosningu á laugardaginn og verða stærsti flokkurinn að loknum kosningum. 

Undir forystu Kristrúnar Frostadóttur höfum við breytt Samfylkingunni og farið aftur í kjarnann. Á grunni málefnavinnu, þar sem við opnuðum flokkinn, mættum við í kosningabaráttuna með metnaðarfulla stefnu og skýrt plan um það hvernig við munum stýra landinu, fáum við til þess umboð frá kjósendum í kosningunum á laugardaginn. Plan sem unnið var í samstarfi við fólkið í landinu. Kristrún Frostadóttir hefur á stuttum tíma breytt flokknum og sýnt með því að hún er tilbúin til þess að leiða breytingar við stjórn landsins. 

Það er komið að ögurstundu í íslensku samfélagi. Viljum við meira af sama hægra ruglinu undir forystu Sjálfstæðisflokksins þar sem hver ríkisstjórnin á fætur annarri springur af því Sjálfstæðisflokkurinn er ekki stjórntækur, þar sem skattbyrðinni er velt af þeim ríkustu yfir á þau efnaminni og innviðaskuldin eykst frá ári til árs? Eða viljum við nýtt upphaf með Samfylkingunni? 

Samfylkingin er með nýja og trausta forystu og kannanir sýna að kjósendur treysta formanni flokksins best til þess að verða næsti forsætisráðherra. Við erum með plan um það hvernig við ætlum stýra landinu og við erum eini flokkurinn sem leggur alla áherslu á að byggja upp sterkari innviði. Við ætlum að; lækka kostnað heimila og fyrirtækja með því að ná tökum á efnahagsmálunum og negla niður vextina, laga heilbrigðiskerfið þar sem að allir fái fastan heimilislækni á næstu árum, standa með ungu fólki með bráðaaðgerðum á húsnæðismarkaði og tryggja örugga afkomu um ævina alla með með því að hækka lífeyri TR í takt við laun og með nýju fæðingarorlofskerfi.

Kæru kjósendur! Öll skynjum við að nú er sögulegt tækifæri til breytinga á Íslandi. Samfylkingin er tilbúin til verka. Nýtum tækifærið á laugardaginn og kjósum breytingar! Samfylkingin er flokkurinn sem tryggir breytingar. X-S á laugardaginn. 

Greinin birtist á Vísi 27.11.2024.

Árni Rúnar Þorvaldsson

Ég er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og er fulltrúi flokksins í fjölskylduráði. Ég skipaði 3. sætið á lista Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningum vorið 2022 en þá vann Samfylkingin glæsilegan sigur og fékk fjóra bæjarfulltrúa. Jafnframt vinn ég sem grunnskólakennari við Smáraskóla í Kópavogi. Ég hef fjölbreytta reynslu af félagsstörfum bæði innan íþróttahreyfingarinnar og stéttarfélags kennara. Ég er kvæntur Ragnhildi Einarsdóttur, deildarstjóra í Lækjarskóla og saman eigum við þrjú börn.

Pin It on Pinterest