Stuðningur

Tónlistarskóli Hafnarfjarðar 75 ára

Síðastliðna helgi hélt Tónlistarskóli Hafnarfjarðar upp á 75 ára afmæli sitt með tvennum glæsilegum tónleikum í íþróttahúsinu við Strandgötu þar sem nemendur og starfsfólk skólans lék listir sínar.

Tónleikarnir báru sannarlega öflugu og faglegu starfi gott vitni.

Óhætt er að segja að framsýni hafi legið að baki þeirri ákvörðun að stofna Tónlistarskóla Hafnarfjarðar árið 1950 og að þar hafi mikilvægu fræi verið sáð í tónlistarlíf bæjarins. Hætt er við að tónlistar- og menningarlíf landsmanna væri fátæklegra ef öflugra tónlistarskóla nyti ekki við.

Fjöldi barna og ungmenna hefur á þessum 75 árum notið tónlistarmennt­unar í skólanum. Það á bæði við um þau sem hafa síðan gert tónlistina að lifibrauði sínu og hin sem njóta mennt­unarinnar með öðrum hætti. Eitt stærsta hlutverk tónlistarskóla er að veita þeim börnum og ungmennum sem hafa áhuga á tónlist og hljóðfæraleik tækifæri til þess enda tónlistarnám mikilvægur liður í frístundastarfi bæjarins og við það ber að styðja með ráðum og dáð

Lengi hefur legið fyrir að núverandi húsakostur skólans rúmar ekki starfsemi hans með góðu móti og við því þarf að bregðast. Þrátt fyrir að öll framboð hafi lagt áherslu á málefni Tónlistarskólans í aðdraganda síðustu bæjarstjórnarkosn­inga hefur áhugaleysi meirihluta Fram­sóknar- og Sjálfstæðisflokks valdið því að lítið hefur þokast í málinu. Samt lagði meirihlutinn fram tillögu á fyrsta fundi bæjarstjórnar á kjörtímabilinu um að hefja undirbúning að stækkun Tónlistar­skóla Hafnarfjarðar en málið sofnaði fljótlega eftir það

Þess vegna leggur Samfylkingin til að undirbúningur stækkunar skólans verði hafinn en við leggjum til að stofnaður verði starfshópur sem hafi það hlutverk. Breiður stuðningur er innan bæjar­stjórnar að Tónlistarskóla Hafnarfjarðar verði sköpuð eins góð og traust umgjörð og mögulegt er og má því ætla að bæjarstjórn samþykki tillögu okkar. Hér er um brýnt mál að ræða og því hefur Samfylkingin frumkvæði að því að setja málið á dagskrá á ný sem verður vonandi til þess að kyrrstaðan verði rofin.

Greinin birtist í 4. tbl. Fjarðarfrétta þann 10. apríl 2025.

Árni Rúnar Þorvaldsson

Ég er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og er fulltrúi flokksins í fjölskylduráði. Ég skipaði 3. sætið á lista Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningum vorið 2022 en þá vann Samfylkingin glæsilegan sigur og fékk fjóra bæjarfulltrúa. Jafnframt vinn ég sem grunnskólakennari við Smáraskóla í Kópavogi. Ég hef fjölbreytta reynslu af félagsstörfum bæði innan íþróttahreyfingarinnar og stéttarfélags kennara. Ég er kvæntur Ragnhildi Einarsdóttur, deildarstjóra í Lækjarskóla og saman eigum við þrjú börn.

Pin It on Pinterest