Hafnarfjörður

Tónninn sleginn með stefnuleysi meirihlutans í húsnæðis- og leikskólamálum

Fyrsti fundur bæjarstjórnar þetta haustið var haldinn í þessari viku. Þetta er raunar annar fundur nýkjörinnar bæjarstjórnar. Þessi fundur markar upphafið af starfi bæjarstjórnar fyrir veturinn og slær þvi tóninn fyrir það sem koma skal.

carbfix

Á fundinum var fjallað um Carbfix verkefnið en unnnið er að undirbúningi þess í Straumsvík. Um gríðarstórt verkefni er að ræða og mikilvægt er formgera samvinnu þeirra aðila sem koma að því sem fyrst. Samfylkingin lagði fram tillögu þess efnis á fundinum en henni var vísað til bæjarráðs til frekari umræðu og vinnslu. Í ljósi umfangs og eðlis verkefnisins er einnig mjög mikilvægt að kynna það vel fyrir bæjarbúum og að það fái eðlilega umræðu í samfélaginu. Fyrir bæjarstjórnarfund fengu bæjarfulltrúar raunar mjög góða kynningu á verkefninu bæði frá hafnarstjóra og þeim sem standa að verekfninu.

Engin svör um Leikskólann

Það vakti athygli á fundinum að fulltrúar meirihlutans voru undrandi á því að við í Samfylkingunni hefðum áhuga á því að ræða leikskólamál á fundinum. Enda höfðu þau ekkert fram að færa og eina sem boðið var upp á voru almenn svör um að ástandið væri allavega ekki verra en á undanförnum árum en boðaðar voru miklar umræður um málið á næsta fundi fræðsluráðs. Það er raunar með algerum ólíkindum að þessi mál hafi ekki verið tekin til umræða á fundi fræðslusráðs í síðustu viku. Þetta hlýtur að vera aðkallandi mál á þessum tímapuntki en svo virðist ekki vera í huga meirihlutaflokkanna.

Stefnuleysi í húsnæðismálum

Á fundinum komu húsnæðismál einnig til umræðu. Ég ræddi um stöðuna á húsnæðismarkaði með sérstakri áherslu á vanda tekju- og eignalágra hópa í samfélaginu. Frammistaða bæjarins undanfarin ár hefur vakið verðskuldaða athygli en það kemur ekki til af góðu. Bærinn hefur ítrekað undanfarin ár rekið lestina meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að fjölda íbúða í byggingu. Hér hefur einfaldlega ríkt stöðnun í boði meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Þetta hefur auðvitað einna helst bitnað á tekju- og eignalágum fjölskyldum og einstaklingum í Hafnarfirði.

ekki minnst á félagslegar íbúðir í málefnasamningi meirihlutans

Í umræðunni um húsnæðismál kom ég inn á það að lítið hefur þokast til betri vegar hvað varðar félagslegar íbúðir hjá Hafnarfjarðabæ undir forystu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Fáar íbúðir hafa bæst inn í kerfið, biðlistar lengjast og fólk í brýnni þörf og mikill neyð þarf að bíða von úr viti eftir úrlausn sinna mála. Hér verður einfaldlega að gera og þess vegna eru það gríðarleg vonbrigði að nýmyndaður meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks virðist engan áhuga hafa á þessu mikilvæga máli því ekki er einu orði minnst á þau í málefnasamningi þeirra.

Árni Rúnar Þorvaldsson

Ég er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og er fulltrúi flokksins í fjölskylduráði. Ég skipaði 3. sætið á lista Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningum vorið 2022 en þá vann Samfylkingin glæsilegan sigur og fékk fjóra bæjarfulltrúa. Jafnframt vinn ég sem grunnskólakennari við Smáraskóla í Kópavogi. Ég hef fjölbreytta reynslu af félagsstörfum bæði innan íþróttahreyfingarinnar og stéttarfélags kennara. Ég er kvæntur Ragnhildi Einarsdóttur, deildarstjóra í Lækjarskóla og saman eigum við þrjú börn.

Pin It on Pinterest