Talnaleikir

Útsvar og fasteignagjöld – talnaleikir meirihlutans

Forystumenn meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra hafa gert mikið úr því að Samfylkingin sé flokkur skattahækkana. Samfylkingin hefur nefnilega lagt til að Hafnarfjarðarbær nýti leyfilegt útsvarshlutfall til að styrkja stöðu bæjarsjóðs og bæta þjónustu. Formaður bæjarráðs segir það ekki samrýmast meirihlutans enda sé það markmið hans að létta undir með fjölskyldufólki í bænum. Það er gott og blessað en þá myndi maður ætla að þessi stefna meirihlutans ætti við um aðra skattstofna í bænum, t.d. fasteignaskatta og gjöld.

Hækkun fasteignamats en óbreytt álagning

Tillaga meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra er að álagningarhlutfallið, sem er 0,26% af fasteignamati, haldist óbreytt á næsta ári þrátt fyrir hækkun fasteignamats sem þýðir þá í reynd skattahækkun á fasteignaeigendur í Hafnarfirði. Að óbreyttu mun því fasteignaskattur í Hafnarfirði á næsta ári verða á bilinu 6,9-9,4% hærri en á þessu ári, eftir tegund og staðsetningu húsnæðis. Ef mið er tekið af fjölskyldu í fjölbýli á Völlunum þá hækka fasteignagjöld hennar um rúmlega 8% milli ára. Ég á erfitt með að sjá hvernig þessi hækkun samrýmist áherslum meirihlutans um að létta undir með fjölskyldufólki í bænum. Auk þess eru þessar hækkanir út úr öllu korti þegar þær eru settar í samhengi við tilmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við gerð lífskjarasamninga í vor um að gjöld á vegum sveitarfélaga hækki ekki umfram 2,5% á næsta ári. Meirihlutinn hefur tilmælin að engu með þessum hækkunum á fasteignagjöldum.

Hver eru áhrifin á fjölskyldufólk í bænum?

Meirihlutinn hefur mikinn áhuga á að láta það líta út fyrir að hann sé að hugsa um fjölskyldufólk með því að fullnýta ekki leyfilegt útsvarshlutfall. Þetta er í versta falli blekkingarleikur en í besta falli talnaleikir því það sem fólk heldur eftir í hægri vasanum tekur meirihlutinn úr vinstri vasanum í gegnum fasteignagjöldin. Það er lágmark að bæjarstjórn Hafnarfjarðar sýni íbúum það svart á hvítu hvaða áhrif hækkun fasteignamats og óbreytt álagning fasteignaskatts hefur á fasteignaeigendur í bænum. Gjaldskrárhækkanir hefur meirihlutinn kallað leiðréttingar. Kannski ætlar hann líka að kalla þyngri greiðslubyrði vegna fasteignagjalda leiðréttingu.

Greinin birtist í Fjarðarfréttum 28.11.2019

Pin It on Pinterest