Grunnstoð norrænna jafnaðarsamfélaga er sterk almenn velferðarþjónusta. Þannig sköpum við réttlátt og öruggt samfélag þar sem allir fá tækifæri til þess að þroska sína hæfileika og láta drauma sína rætast. Þáttur sveitarfélaganna í velferðarþjónustunni er stór og fer stækkandi. Því er mikilvægt að bæjarstjórn sé skipuð fólki sem er umhugað um velferðarþjónustuna, hópana sem nýta sér hana og fólkið sem starfar innan hennar.
Lækkum álögur á barnafjölskyldur
Það er mikilvægt að búa nýjum kynslóðum gott og öruggt umhverfi. Leik- og grunnskólar, skipulagt frístundastarf og sterk velferðarþjónusta gegna þar lykilhlutverki. Bæjarfélagið á að styðja við bakið á barnafjölskyldum vegna þess að við megum ekki láta það gerast að efnahagur fjölskyldna komi í veg fyrir þátttöku barna og unglinga í skipulögðu frístundastarfi. Þess vegna eigum við að leitast við að lækka álögur á barnafjölskyldur.
Hafnarfjörður – góður staður fyrir eldri borgara
Við eigum að byggja upp samfélag þar sem gott er að eldast. Eldri borgarar eru fjölbreyttur hópur og því mikilvægt að sníða þjónustuna að ólíkum þörfum og skapa hópnum fjölbreytt tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu. Tryggja verður eldri borgurum aðgang að fjölbreyttu og heppilegu húsnæði sem mætir þörfum þessa hóps. Öflug félagsleg heimaþjónusta á svo að styðja við eldri borgara til að búa á eigin heimili og þessa þjónustu verður að halda áfram að efla.
Virðum réttindi fatlaðs fólks
Öll þjónusta við fatlað fólk á að grundvallast á virðingu fyrir sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti hvers einstaklings. Markmiðið á að vera að tryggja fötluðu fólki fullt aðgengi á öllum sviðum samfélagsins þannig að það hafi fjölbreytt tækifæri til sjálfstæðs lífs. Mikilvægt er að virða þau grundvallarmannréttindi að fatlað fólk hafi aðgang að húsnæði við hæfi og hér dugar ekkert minna en stórátak. Það er óþolandi að vita til þess að fatlað fólk þurfi að dúsa á biðlista árum saman eftir húsnæði við hæfi eða búi árum saman á sambýlum sem löggjafinn hefur sagt að eigi að útrýma sem búsetuformi.
Ég brenn fyrir þessum málum
Þessi málefni sem ég hef hér drepið á eru mér öll mjög hugleikin. Fái ég brautargengi í flokksvali Samfylkingarinnar mun ég berjast í þágu þessara mála af krafti í mínum störfum. Ég hvet allt jafnaðarfólk til þess að taka þátt í flokksvalinu þann 12. febrúar næstkomandi til þess að veita þessum mikilvægu málum brautargengi.
Greinin birtist fyrst á vef Fjarðarfrétta 24. janúar 2022